Ásatrúarfélagið og jöfnunarsjóður

Þór með hamarinnÞriðjudaginn 28. nóvember féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur vegna málsóknar Ásatrúarfélagsins á hendur íslenska ríkinu um greiðslur, sambærilegar þeim sem fara í Jöfnunarsjóð sókna og Kirkjumálasjóð. Niðurstaða dómsins er á margan hátt áhugaverð. Dómurinn skoðar mismunandi hlutverk sjóðanna og telur ekki sýnt fram á mismunun hvað varðar Kirkjumálasjóð. Varðandi Jöfnunarsjóð sókna segir hins vegar:

Í 6. gr. laganna er kveðið á um hlutverk Jöfnunarsjóðs, sem er að veita styrki til þeirra kirkna sem hafa sérstöðu umfram aðrar sóknarkirkjur, leitast við að jafna aðstöðu og styrkja sóknir þar sem lögmæltar tekjur samkvæmt 2. gr. laganna nægja ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum, auðvelda stofnun sókna í nýjum byggðarhverfum og styrkja kirkjulega félags- og menningar­starfsemi. Má af því sem þarna kemur fram ráða að gert er upp á milli sókna sem fá styrki úr Jöfnunarsjóði sókna annars vegar og skráðra trúfélaga samkvæmt lögum um trúfélög nr. 108/1999 hins vegar sem ekki fá sambærileg fjárframlög. Í lagaákvæðinu sem stefnandi vísar til felst því á vissan hátt mismunun, sem ekki hefur verið sýnt fram á að byggist á málefnalegum forsendum.

Greiðslur í Jöfnunarsjóð sókna eru hins vegar ákvarðaðar með lögum og telur Dómstóllinn ekki hægt að fallast á fjárkröfur Ásatrúarfélagsins því lagaheimild skorti.

Biskup Íslands lagði til við forsætisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra árið 1999 að staða trúfélaga yrði jöfnuð að þessu leyti og væri það vel við hæfi í tilefni hátíðahaldanna árið 2000. Kirkjuþing ályktaði um málið árið 2005 og samþykkti eftirfarandi ályktun allsherjarnefndar:

Allsherjarnefnd telur eðlilegt að skoða stöðu þeirra safnaða sem ekki njóta fjárstuðnings úr opinberum sjóðum, umfram sóknargjöld. Nefndin telur rétt að allir skráðir söfnuðir njóti jafnræðis í þessum efnum.

Kirkjuráð ályktaði einnig um málið sama ár. Þá hefur samstarfsnefnd kristinna trúfélaga að frumkvæði Þjóðkirkjunnar rætt möguleika á sameiginlegum þrýstingi á stjórnvöld um breytingu hvað þetta varðar.

Ásatrúarfélagið mun áfrýja úrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar. Það verður áhugavert að sjá hver niðurstaðan verður, einkum er varðar Jöfnunarsjóð sókna og hvort hún kalli á lagabreytingu.

Með hliðsjón af samþykkt Kirkjuþings 2005 og tillögum biskups Íslands við ríkisstjórn er ljóst að Þjóðkirkjan styður Ásatrúarfélagið í umleitan sinni.

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir